top of page
DSC_3757 T.jpg

ARFLEIРHELLANNA VIРHELLU

Hellarnir á Hellu eru á jörðinni Ægissíðu og eru með þekktustu manngerðu hellum á Íslandi.

Fjölskyldan okkar hefur séð um hellana í nærri 200 ár og 2019 opnuðum við fjóra af tólf hellum fyrir almenningi. Í júlí 2024 hófst uppgröftur í fimmta hellinum og er nú hægt að skyggnast inn í hann.
Meginmarkmiðið er að varðveita hellana og segja sögu þeirra, söguna sem forfeður okkar sögðu okkur af leyndardómum hellanna og landnáminu fyrir landnám.

​

Hellarnir eru elstu uppistandandi hýbýli á Íslandi. Þeir eru höggnir af mönnum en enginn veit hvenær. Sumir telja að þeir hafi verið gerðir af Keltum fyrir landnám norrænna manna á níundu öld. Hellarnir eru því hjúpaðir dulúð og í mörgum þeirra má finna veggristur, fangamörk, ártöl, krossmörk, búmerki og jafnvel rúnir.

​

Í gegnum aldirnar hafa hellarnir t.d. verið notaðir fyrir húsdýr og til að geyma hey og matvæli. Skipulag hellanna er margs konar og í þeim má t.d. sjá forskála, strompa, brunna, berghöld, hillur og stalla. Hellarnir endast misvel og hefur styrkleiki bergsins, lag og þykkt þaks og veggja auk frágangs við strompa og dyr mikið um það að segja. Vel gerðir hellar með réttum frágangi geta staðið í aldir.

​

Hellarnir eru friðlýstir og ganga verður um þá af virðingu. 

Með því að vera með skipulagða leiðsögn um hellana eru bundnar vonir við að hægt verði að gera upp fleiri hella, bjarga fornum minjum og auka aðgengi að elstu mannvirkjum sem enn standa á Íslandi.

​

Fjölskyldan á Ægissíðu vinnur að því að byggja upp og varðveita umhverfi og sögu hellana

í samvinnu við nærsamfélagið og Minjastofnun.

Við hlökkum til að taka á móti ykkur og sýna ykkur duldan ævintýraheim Suðurlands

"Umhorfs minnir þar um margt á sviðsmynd í Indiana Jones eða The Lord Of The Rings kvikmyndunum               og er sjón sannarlega sögu ríkari."

​

Júlía Margrét Einarsdóttir, menningarráðunautur RÚV, 2019. 

bottom of page